Alhliðahestar á Rangárbökkum

Júní frá Syðri-Gróf, knapi Einar Öder Magnússon. Mynd: Eiríkur Jónsson
Júní frá Syðri-Gróf, knapi Einar Öder Magnússon. Mynd: Eiríkur Jónsson

Klárhestar með skeiði á LM2020

Júní frá Syðri-Gróf braut blað þegar hann varð efstur í A flokki gæðinga á Landsmóti hestamanna á Rangárbökkum 1986. Hestinn sat Einar Öder Magnússon, sem þá var ungur og upprennandi reiðmaður. Hann var tvímælalaust knapi mótsins, sat þar mörg af topphrossunum.

 

Júní með X-faktorinn

Júní var ekki hinn dæmigerði íslenski gæðingur og vekringur. Hann var líkari því að vera klárhestur á tölti og brokki, hágengur með X-faktor, en var þó flugvakur líka. Hlaut 9,0 fyrir brokk og skeið í kynbótadómi árið áður sem afkvæmi Högna frá Sauðárkróki. Segja má að Júní og Sámur frá Vallanesi, Reynis Hjartarsonar á Akureyri, hafi háð einvígi í úrslitunum og þar hafi farið fram einskonar uppgjör milli gamla góða íslenska gæðingsins og vekringsins annars vegar, og nútíma sýningahestsins hins vegar. Sámur, sem var flugvakur úrvals reiðhestur og gæðingur, var efstur eftir forkeppnina en Júní fjórði. Í úrslitunum hafði Júní betur og margir af gamla skólanum voru gramir, sögðu að Júní hefði unnið A flokkinn á brokkinu. Er þetta dæmi aðeins eitt af mörgum um vendipunkta í íslenskri reiðmennsku og hestamennsku sem átt hafa sér stað á Landsmótum hestamanna á Rangárbökkum, hinu fornfræga sögusviði fornbókmenntanna.

 

Yngstur sigurvegara

Fimm sinnum hefur Landsmót hestamanna verið haldið á Rangárbökkum: 1986, 1994, 2004, 2008 og 2014. Á LM1994 átti Gýmir frá Vindheimum sigurinn vísan, en féll úr keppni í úrslitum eftir sögulega uppákomu þegar kjúkuliður á framfæti fór í sundur. Þá tók við keflinu hinn ungi og efnilegi knapi Daníel Jónsson á hesti sínum Dalvari frá Hrappsstöðum, hesti sem hann fékk í hestakaupum hjá reiðskóla í Fáki. Daníel er yngsti knapi sem unnið hefur til gullverðlauna í gæðingakeppni á Landsmóti, hann var aðeins 18 ára þegar þetta var.

Á LM2004 var það Geisli frá Sælukoti sem kom, sá og sigraði, knapi Steingrímur Sigurðsson. Á LM2008 varð Aris frá Akureyri óvænt efstur í A flokki í kjölfar þess að Kolskeggur frá Oddhóli, Sigurbjörns Bárðarsonar, missti undan sér framfótarskeifu í úrslitum. Knapi á Aris var Árni Björn Pálsson, þá rísandi stjarna. Á LM2014 var það stóðhesturinn og gæðingurinn Spuni frá Vesturkoti sem stóð efstur alhliða gæðinga, knapi Þórarinn Ragnarsson. Frækileg frammistaða hjá lítt reyndum hesti og knapa í þessari keppni.

 

Úllen dúllen doff

En hvaða hestur skyldi hljóta hinn eftirsótta A flokks bikar á LM2020 á Rangárbökkum? Því er ekki auðsvarað. Aldrei hafa verið undir hnakk jafnmargir frábærir alhliða gæðinga á Íslandi og í dag. Og þá erum við að tala um hesta sem eru jafnvígir á öllum gangi, hágengir og vígalegir á tölti og brokki, og flugvakrir, með mismunandi skeiðlag, vissulega, en vakrir engu að síður.

Nærtækast er að líta á úrslitahross í A flokki á LM2018. Það er skemmst frá því að segja að sigurvegari þeirra úrslita, Hafsteinn frá Vakurstöðum, mun ekki taka þátt í keppni á þessu ári, í það minnsta, hvað sem síðar verður. Hann varð fyrir slysi í fyrra og er ennþá ekki búinn að jafna sig að fullu. Hesturinn sem varð í öðru sæti og kom líklega mest á óvart í A flokknum var Atlas frá Lýsuhóli, knapi Jóhann Kristinn Ragnarsson. Hann er nú kominn með nýjan þjálfara, sem er hin unga og efnilega reiðkona Bríet Guðmundsdóttir, en hesturinn er í eigu fjölskyldu hennar. Planið í dag er hins vegar að Jóhann Kristinn taki við hestinum fyrir úrtöku.  Villingur frá Breiðholti varð í þriðja sæti, knapi Sylvía Sigurbjörnsdóttir. Sylvía og Kári Stefánsson eiga hestinn saman, hann er í þjálfun hjá Sylvíu og hún stefnir með hann í úrtöku.

Krókus frá Dalbæ, sem var í fjórða sæti, knapi Sigursteinn Sumarliðason, er í þjálfun hjá Sigursteini og má búast við að hann komi sterkur til leiks, fullharðnaður hestur og mikill garpur. Nói frá Stóra-Hofi, sem var í fimmta sæti, knapi Daníel Jónsson, var seldur til útlanda í fyrra. Nói frá Saurbæ er hins vegar ennþá hér á Fróni og eigandi hans og knapi, Sina Scholz mun væntanlega tefla honum fram sem alhliða gæðingi og töltara á LM2020 eins og síðast, jafnvel þótt hún hafi tekið létta æfingu í fjórgangi í KS deildinni í vetur.

Sjóður frá Kirkjubæ er sem fyrr í þjálfun hjá Teiti Árnasyni og Eyrúnu Ýr Pálsdóttur. Teitur sat hann í forkeppni á LM2018 en Eyrún í úrslitum. Sjóður ku vera í feikna stuði þessa dagana, vaxandi hestur, en Teitur verður þó líklega að sitja hann sjálfur í úrslitum ef vel gengur, því Eyrún Ýr hefur verið með Hrannar frá Flugumýri undir hnakk í vetur og stefnir með hann í úrtöku. Hrannar varð efstur í A flokki á LM2016 á Hólum, knapi Eyrún Ýr og varð hún þar með fyrsta konan til að vinna þennan eftirsóttasta titil hestaíþróttanna.

 

Stöðulistinn og aðrir góðir

Ef litið er á stöðulistann í A flokki fyrir 2109, þá er Kolskeggur frá Kjarnholtum þar á toppi ef aðeins eru tekin með fullgild mót. Árangur frá Fákaflugi er þar inni, þótt þar hafi aðeins farið fram „sérstök“ forkeppni þar sem feti og stökki er sleppt. Kolskeggur var í mjög góðu formi á LM2018, en lenti í B úrslitum, sem hann var líklegur til að finna þegar knapi hans Daníel Jónsson ákvað að hætta keppni þar sem hesturinn hafði bitið sig í munni og blóðgast. Kolskeggur hefur verið í þjálfun hjá Daníel í vetur en endanleg ákvörðun úrtöku hefur ekki verið tekin.

Í efsta sæti á stöðulistanum, eins og hann er birtur á Worldfeng, er Kalsi frá Þúfum, knapi Mette Mannseth, árangur frá Fákaflugi. Í þriðja sæti listans er Harpa Sjöfn frá Hvolsvelli, knapi Bjarni Jónasson, í fjórða sæti Sólon frá Þúfum, knapi Guðmundur Björgvinsson, og í fimmta sæti Nagli frá Flagbjarnarholti, knapi Sigurbjörn Bárðarson. Nagli keppti í B úrslitum á LM2018 en náði ekki flugi, hann var hins vegar efstur í A flokki á Metamóti Spretts. Fáir standa Sigurbirni snúning í keppni á beinni braut.

Í B úrslitum var líka annar mjög sigurstranglegur hestur, Gangster frá Árgerði, knapi Hinrik Bragason. Eigandi hestsins, Stefán Birgir Stefánsson, sat hestinn sjálfur á LM2014 á Rangárbökkum og gerði feikna góða sýningu í milliriðli. Þeir félagar fóru heldur bratt inn í A úrslitin en hefðu að flestra mati átt góða möguleika á sigri ef þeir hefðu farið örlítið hægar af stað. Gangster var stórgóður undir hnakk hjá eigandanum á Einarsstaðamóti 2018, þar sem hann vann A flokkinn með yfirburðum.

Því hefur verið fleygt að hinn flugrúmi gæðingur Nökkvi frá Skörðugili sé í feikna formi þessa dagana og knapi hans og þjálfari, Jakob Svavar Sigurðsson, stefni jafnvel með hann í úrtöku í A flokki gæðinga. Nökkvi var efstur í B flokki á LM2016 á Hólum og annar í B flokki á LM2018 í Reykjavík. Að lokum má nefna annan frægan garp, Organista frá Horni, sem stóð hestur í 6 vetra flokki stóðhesta á LM2016 með 8,94 fyrir kosti, knapi Árni Björn Pálsson. Organisti fékk 8,74 í A flokks úrtöku Fáks 2018, en skeiðspretturinn klikkaði í forkeppninni á LM2018. Það má telja nokkuð öruggt að Árni Björn mun ekki láta það henda aftur, en hesturinn er í þjálfun hjá honum.

Mörg fleiri hross mætti nefna, sem gætu gert usla á toppnum í A flokki á LM2020, af nógu er að taka. En látum þetta gott heita að sinni.

Höf: Jens Einarsson


Athugasemdir