Manstu þá - Landsmót hestamanna 1986!

LM1986 - Sveinn og Einar Öder

Landsmót hestamanna 1986 á Rangárbökkum var mót þeirra Sveins Guðmundssonar, hrossaræktanda á Sauðárkróki, og Einars Öders Magnússonar, hins frækna reiðmanns sem féll frá fyrir aldur fram. Hann vann meðal annars það afrek að sigra bæði A og B flokk gæðinga á Landsmótum, A flokk á LM1986 og B flokk á LM2012.

Otur og Kjarval frá Sauðárkróki, úr ræktun Sveins og sýndir af Einari Öder, voru stjörnur kynbótahrossanna ásamt Kröflu frá Sauðárkróki, Jóhanns Þorsteinssonar í Miðsitju. Krafla, sem stóð efst í elsta flokki hryssna, var undan hinum fræga Höfða-Gusti frá Sauðárkróki, sem var úr ræktun Sveins. Júní frá Syðri-Gróf, sigurvegari í A flokki gæðinga, sem Einar Öder sat einnig, var undan Högna frá Sauðárkróki, Sörlasyni frá Sauðárkróki.

Otur og Kjarval frá Sauðárkróki

Otur og Kjarval frá Sauðárkróki

Krafla

Krafla frá Sauðárkróki

Hrafnhetta frá Sauðárkróki stóð efst hryssna með heiðursverðlaun og dóttir hennar Ör frá Sauðárkróki stóð efst í 4 vetra flokki. Blökk frá Efri-Brú, sem stóð efst í 5 vetra flokki hryssna, var undan Blæ frá Sauðárkróki.

Einar Öder varð einnig þriðji í tölti á Tinnu frá Flúðum, Sörladóttur frá Sauðárkróki. Þá sat hann stóðhestinn Flosa frá Brunnum, sem stóð annar í elsta flokki stóðhesta og vakti mikla athygli fyrir vilja, mýkt, tölt og skeið.

 

Ímynd sýningahestsins

Að sumu leyti undirstrikaði LM1986 smekk fólks á íslenska nútíma hestinum. Ekki var lengur nóg að hestur væri þægilegur til reiðar, hann varð að vera eftirtektarverður og glæsilegur. Helstu stjörnur þessa móts: Júní frá Syðri-Gróf, Kristall frá Kolkuósi, sigurvegar í B flokki gæðinga, Snjall frá Gerðum, sigurvegari í tölti, og Otur frá Sauðárkróki, sigurvegari í flokki 4 vetra stóðhesta, áttu það sameiginlegt að vera „fótaburðarhestar“. Þeir voru flottir. Vígalegir!

Skýrast kom þetta kannski fram í A flokki gæðinga. Eftir forkeppni stóð Sámur frá Vallanesi efstur með 8,70 í einkunn. Knapi og eigandi Reynir Hjartarson. Sámur var fljúgandi vekringur og reiðhestur eins og þeir gerast bestir. Júní var grófari hestur, með háa hnélyftu, lyfti í vinkil eins og sagt var, tölt og brokk eins og í flottum klárhesti. Júní var hins vegar í fjórða sæti eftir forkeppni með 8,60.

Uppgjör þessara tveggja gæðinga í úrslitum var nokkuð umdeilt og sögðu margir að Júní hefði unnið A flokkinn á brokki. Einnig blésu vindar sterkt með Einari Öder, hann var rísandi stjarna. Í úrslitunum var sætaröðun, en ekki gefnar einkunnir fyrir hvern þátt, eins og nú er gert. Hugsanlega hefði niðurstaðan orðið önnur ef svo hefði verið. Í þessu samhengi er þó rétt er að geta þess að Júní fór í kynbótadóm 1985 sem afkvæmi Högna og hlaut þá 8,5 fyrir tölt og 9,0 fyrir brokk og skeið. Sá dómur styrkir óneitanlega stöðu hans í þessum samanburði.

Júní frá Brúnum Mynd: EJ

Júní frá Brúnum

 

Landsmót hestamanna 2022 fer fram 3. - 10. júlí á Rangárbökkum við Hellu. Tryggðu þér miða á www.tix.is/landsmot 


Athugasemdir