Sýning ræktunarbúa á Landsmóti hestamanna 2022

Sýningar ræktunarbúa skipa heiðurssess á landsmótum hestamanna og á LM2022 á Hellu verður engin breyting þar á. Stefnt er á að tilhögun sýninga verði með svipuðu sniði og verið hefur á undanförnum mótum, þ.e. að þátttaka verði bundin við 10 ræktunarbú. Ræktunarbúin eru á dagskrá mótsins föstudagskvöldið 8. júlí og mun áhorfendum verða boðið að velja bestu ræktunarbússýninguna.

Það ræktunarbú sem sigrar á föstudagskvöldi ávinnur sér þann heiður að koma fram á laugardagskvöldinu í skemmtidagskrá kvöldvöku. Sýningartími á hvert bú er 5 mínútur. Útfærsla sýningar er alfarið á ábyrgð forráðamanna. Fótaskoðun verður viðhöfð og gilda reglur gæðingakeppni þar um, auk þeirra viðmiðana um heilbrigði sem mótstjórn LM setur. Að lágmarki skulu 5 hross sýnd og þurfa þau að vera frá sama lögbýli, eða fædd meðlimum sömu fjölskyldu.

Þátttakendur velja tónlist sjálfir og hafa samráð við þul hvernig búið skuli kynnt. Ein síða í mótaskrá fylgir til kynningar á búinu og þeim hestum sem koma fram í sýningunni en forsvarsmenn búanna verða að skila inn sinni síðu/auglýsingu á prenthæfu pdf-skjali, fyrir 20. Júní 2022. Verði síðan ekki komin fyrir þann tíma mun hún ekki birtast í skránni. Að auki geta sýnendur nýtt risaskjá við völl meðan á sýningu stendur.

Ræktunarbúi ársins 2021 er boðin þátttaka sem og keppnishestabúi ársins 2021. Dregin verða svo 8 bú til þátttöku úr innsendum umsóknum. Skráningargjaldið er kr. 195.000.

Þeir hrossaræktendur sem hafa áhuga á að koma fram með sinn hóp á Landsmóti 2022 eru beðnir að senda inn umsókn um slíkt og athugið að gefa upp nákvæmar upplýsingar um hvaða hross er stefnt með á sýninguna.

Umsóknarfrestur er til og með 1. júní og verður tilkynnt þann 5. júní hvaða ræktunarbú munu taka þátt.

Umsóknir skulu sendar á netfangið landsmot@landsmot.is.


Athugasemdir