Klárhestar á Rangárbökkum

Kristall frá Kolkuósi, knapi og eigandi Gylfi Gunnarsson, varð efstur í B flokki gæðinga á tíunda La…
Kristall frá Kolkuósi, knapi og eigandi Gylfi Gunnarsson, varð efstur í B flokki gæðinga á tíunda Landsmóti hestamanna, LM1986, fyrsta Landsmótinu sem haldið var á Rangárbökkum, félagssvæði Geysis.
Mynd: Hesturinn okkar

Kristall frá Kolkuósi, knapi og eigandi Gylfi Gunnarsson, varð efstur í B flokki gæðinga á tíunda Landsmóti hestamanna, LM1986, fyrsta Landsmótinu sem haldið var á Rangárbökkum, félagssvæði Geysis.

Fyrirfram gerðu flestir ráð fyrir að slagurinn um toppsætið yrði á milli Kristals og Snjalls frá Gerðum, sem þá var orðinn landsfrægur ásamt knapanum Olil Amble. Sú spá rættist, Kristall og Snjall báru nokkuð af öðrum hestum í flokknum, þeir voru skör hærri í einkunn í forkeppni og allra augu hvíldu á þeim í úrslitum. Yfirferðin var riðin á beinni braut, einn hestur í einu líkt og skeið í A flokki, og þar naut Kristall sín vel, stinnur og þrautþjálfaður reiðhestur og keppnishestur til margra ára. Sigur hans var sannfærandi, mikill reiðhestur og glæsihestur.

Fimm sinnum hefur Landsmót hestamanna verið haldið á Rangárbökkum: 1986, 1994, 2004, 2008 og 2014. Tveir synir Oturs frá Sauðárkróki hafa unnið B flokkinn á LM á Rangárbökkum: Orri frá Þúfu á LM1994 og Rökkvi frá Hárlaugsstöðum á LM2004. Á LM2008 varð Röðull frá Kálfholti hlutskarpastur, eigandi og knapi Ísleifur Jónasson, og á LM2014 var það stóðhesturinn Loki frá Selfossi sem hafði sigur, knapi Sigurður Sigurðarson.

VEISTU HVER ÉG VERÐ?

Að vanda er fólk byrjað að spá og spekúlera hvaða hestar og knapar séu líklegastir til afreka á LM2020 á Rangárbökkum. Í B flokki verða úrslitahestar á LM2018 í Reykjavík að teljast líklegir, þeir sem á annað borð mæta og taka þátt. Ef við lítum nánar á úrslitin frá LM2018 þá er listinn þessi:

1 Frami frá Ketilsstöðum / Elin Holst 9,14
2 Nökkvi frá Syðra-Skörðugili / Jakob Svavar Sigurðsson 9,09
3 Hátíð frá Forsæti II / Jón Páll Sveinsson 8,96
4 Ljósvaki frá Valstrýtu / Árni Björn Pálsson 8,92
5 Þrumufleygur frá Álfhólum / Viðar Ingólfsson 8,79
6 Herkúles frá Ragnheiðarstöðum / Guðmundur Björgvinsson 8,67
7 Andi frá Kálfhóli 2 / Daníel Jónsson 8,59
8 Sæþór frá Stafholti / Snorri Dal 8,11 

Frami frá Ketilsstöðum, sigurvegari í B flokki á LM2014, er ennþá í fullu fjöri, 13 vetra stinnur og margreyndur keppnishestur. Þrumufleygur, Andi og Herkúles eru farnir úr landi og Sæþór er fallinn, svo ekki stafar ógn af þeim. Hátíð er fylfull samkvæmt Worldfeng, en aðrir hestar eru tilbúnir í slaginn eftir því sem best er vitað.

List frá Þúfum, knapi Mette Mannseth, er efst á stöðulista í B flokki fyrir árið 2019, hlaut 8,96 í einkunn á Fákaflugi. Oddi frá Hafsteinsstöðum er annar á stöðulistanum með 8,70 á sama móti. Tekið skal fram að einkunnirnar eru úr sérstakri forkeppni, tveir eða fleiri inn á í einu, ekki riðið fet og stökk. Álfgrímur frá Syðri-Gegnishólum, knapi Bergur Jónsson, hlaut 8,63 í forkeppni á Gæðingamóti Sleipnis, 8,69 í úrslitum og þriðja sætið. Glampi frá Ketilsstöðum, knapi Olil Amble, varð í öðru sæti í úrslitum með 8,69, en efst varð Hnoss frá Kolsholti 2, knapi Helgi Þór Guðjónsson. Tromma frá Höfn, sigurvegari í B flokki á Fjórðungsmóti Austurlands 2019, gæti orðið skeinuhætt ef hún kemst í úrslit, mikið yfirferðarhross og flink í fótum. Mörg fleiri hross mætti nefna sem gerðu það gott í B flokki á síðasta ári.

Ef litið er til Meistaradeildarinnar, þá verður Hátíð frá Hemlu II, knapi Árni Björn Pálsson, að teljast líkleg í baráttuna um toppsætið. Glæsihryssa. Ljósvaki er einnig í þjálfun á Oddhóli hjá þeim Árna Birni og Sylvíu. Af öðrum hestum í Meistaradeild má nefna Ársæl frá Hemlu II, Stegg frá Hrísdal og Takt frá Vakurstöðum, svo einhversstaðar sé gripið niður. Allt hestar sem gætu notið sín í gæðingakeppni.

Að síðustu skal svo nefna frægasta klárhest landsins um þessar mundir, Kveik frá Stangarlæk, sem mun að öllum líkindum mæta í úrtöku fyrir LM2020. Hann hefur þegar sannað sig í tölti T1 og ekki hefur brokkið vafist fyrir honum. Semsagt, spennandi B flokkur á LM2020 á Rangárbökkum. 

Stöðulistinn í B flokki 2019, 20 efstu:

Mette Mannseth IS2011258160 List frá Þúfum 8,96
Skapti Steinbjörnsson IS2009157352 Oddi frá Hafsteinsstöðum 8,70
Árni Björn Pálsson IS2010180716 Ljósvaki frá Valstrýtu 8,69
Hanne Oustad Smidesang IS2009186404 Roði frá Hala 8,64
Bergur Jónsson IS2011187660 Álfgrímur frá Syðri-Gegnishólum 8,63
Sigurður Sigurðarson IS2012188068 Gaukur frá Steinsholti II 8,60
Þórarinn Ragnarsson IS2011187118 Leikur frá Vesturkoti 8,59
Páll Bragi Hólmarsson IS2012282652 Sigurdís frá Austurkoti 8,59
Bergur Jónsson IS2011176178 Glampi frá Ketilsstöðum 8,58
Ólafur Ásgeirsson IS2008182454 Glóinn frá Halakoti 8,58
Brynja Amble Gísladóttir IS2010176186 Goði frá Ketilsstöðum 8,57
Sonja Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir IS2005165101 Jónas frá Litla-Dal 8,56
Hlynur Guðmundsson IS2011277012 Tromma frá Höfn 8,56
Finnbogi Bjarnason IS2010276015 Úlfhildur frá Strönd 8,56
Jón Óskar Jóhannesson IS2011167169 Hljómur frá Gunnarsstöðum I 8,55
Ragnhildur Haraldsdóttir IS2010125234 Bragur frá Laugabakka 8,55
Helgi Þór Guðjónsson IS2009287695 Hnoss frá Kolsholti 2 8,53
Sólon Morthens IS2010188691 Fjalar frá Efri-Brú 8,53
Magnús Bragi Magnússon IS2011257618 Drottning frá Íbishóli 8,52
Hlynur Pálsson IS2004187027 Dökkvi frá Ingólfshvoli 8,52


Athugasemdir