Landsmót á Hólum 2026 verður það 26. í röðinni og í þriðja skipti sem mótið verður haldið í Hólum í Hjaltadal af hestamannafélaginu Skagfirðingi, 60 ár eru frá fyrsta landsmótinu sem var haldið á Hólum.
Frá upphafi eða frá því að Landsmót var fyrst haldið á Þingvöllum, hefur mótið verið einn stærsti íþróttaviðburður landsins.
Landsmót hestamanna er einn stærsti íþróttaviðburður landsins en Landssamband hestamanna er fjórða stærsta sérsamband ÍSÍ með meira en 12.000 félagsmenn.
Búast má við rúmlega 7.500 gestum á mótið. Stærsti hópurinn eru Íslendingar en á eftir þeim koma Þjóðverjar, Svíar, Danir og Bandaríkjamenn. Gestir síðasta móts á Hellu 2022 komu frá 17 löndum.
Keppnishluti Landsmóts er gríðar stór en keppendur koma frá öllum hestamannafélögum af landinu. Þá er Landsmót einnig vettvangur fyrir sýningu hæst dæmdu kynbótahrossa í hverjum aldursflokki.
Landsmót hestamanna í 72 ár.
Saga Landsmótanna nær aftur til 1950 þegar fyrsta Landsmótið var haldið á Þingvöllum. Þar voru sýnd 133 hross, kynbótahross, gæðingar og kappreiðahross. Á þeim tíma var aðeins keppt í einum flokki gæðinga sem var flokkur alhliða gæðinga, auk kappreiða og kynbótasýninga.
Eftir það voru haldin Landsmót á fjögurra ára fresti, allt þar til að á ársþingi Landssambands Hestamannafélaga 1995 var samþykkt að halda Landsmót á tveggja ára fresti. Fyrsta mótið sem haldið var eftir þeim reglum, þ.e. á tveggja ára fresti var Landsmót í Reykjavík árið 2000.
Mótin hafa vaxið gríðarlega að umfangi sérstaklega hvað keppnishlutann varðar og fjölda hrossa. Það er þó áhugavert að á fyrsta Landsmót hestamanna á Þingvöllum árið 1950 sóttu um 10.000 gestir mótið. Aðsóknarmet var slegið á Gaddstaðaflötum árið 2008 þar sem hátt í 14.000 gestir, knapar, starfsmenn og sjálfboðaliðar komu saman.
