Framkvæmdir vegna Landsmót hestamanna 2026 á fullu – „generalprufa“ í gangi á Hólum

Komin mynd á mótsvæðið
Komin mynd á mótsvæðið

Framkvæmdir á stórmóta- og kennslusvæðinu á Hólum í Hjaltadal eru nú í fullum gangi, tæpu ári áður en Landsmót hestamanna verður sett þar í júlí 2026.  Aðalvöllurinn á svæðinu hefur þegar fengið andlitslyftingu og búið er að leggja nýtt efni á allar keppnisbrautir.  Á næstu vikum verður upphitunarvöllur stækkaður og endurbyggður, útbúin verður ný ferjuleið frá honum yfir á aðalvöll og lagt verður nýtt efni á kynbótabraut.  Að þessu loknu verður keppnissvæðið á Hólum í toppstandi, klárt fyrir kennslu hestafræðideildar á svæðinu í vetur og Landsmót næsta sumar.

Ýmsar aðrar lagfæringar eru ráðgerðar á svæðinu til að allt verði sem glæsilegast þegar Landsmót gekk í garð.  Svæðið sannaði sig sem frábært mótssvæði á Landsmóti á Hólum 2016, húsakostur er frábær, tjaldsvæði næg og dalurinn myndar fallega umgjörð utan um mótið.

Framkvæmdanefnd mótsins hefur þegar hafið störf fyrir nokkru og ráðið Áskel Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóra mótsins, en hann stýrði einnig mótinu 2016 og Landsmóti í Reykjavík 2018.

Mótssvæðið hefur iðað af lífi og fjöri síðustu daga en þar hafa staðið yfir upptökur á leikinni sjónvarsseríu, Bless, bless Blesi.  Serían gerist m.a. á Landsmóti hestamanna og því hefur verið lögð mikil vinna í að endurgera aðstæður á mótssvæðinu eins og kostur er og er engu líkara þessa dagana en að Landsmót sé að bresta á á Hólum.