Gengið hefur verið frá því að Hilda Karen Garðarsdóttir verði mótsstjóri á Landsmóti hestamanna. Henni til halds og trausts varðandi skipulag og utanumhald á keppni verða Skagfirðingarnir Sigurlína Erla Magnúsdóttir og Unnur Rún Sigurpálsdóttir.
Hilda á að baki langan feril þegar kemur að Landsmótum og öðru mótahaldi. Hún hefur stýrt Reykjavíkurmeistaramótum frá 2018, starfaði um árabil á skrifstofu LH, var m.a. skrifstofustjóri á LM2016 á Hólum og á síðasta Landsmóti í Víðidal var hún í hlutverki mótsstjóra. Á myndinni má sjá Áskel Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóra LM26 og Hildu Karen þegar gengið var frá samningi.
Skipulag á keppni og umsjón með framkvæmd hennar er í góðum höndum hjá Hildu og hennar frábæra teymi, en frekari upplýsingar um skráningarfresti og annað sem skiptir máli varðandi keppnishluta LM mun birtast inn á heimasíðu mótsins, landsmot.is.