Vel sóttur kynningarfundur um Landsmót hestamanna 2026

Hestamannafélagið Skagfirðingur sem heldur Landsmót hestamanna á Hólum næstkomandi sumar stóð fyrir kynningarfundi í félagsheimili sínu, Tjarnarbæ, í vikunni þar sem farið var yfir skipulag mótsins og undirbúning þess. Á fundinum fór Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri mótsins, yfir helstu verkefni sem snúa að undirbúningi auk þess að segja frá þeim framkvæmdum á mótssvæðinu sem farið hafa fram í sumar. Áskell Heiðar lagði áherslu á að mikil samstaða væri í héraðinu í aðdraganda mótsins og að samstarf hestamannafélagsins, Háskólans á Hólum, sveitarfélagsins og atvinnulífs í héraði væri mjög gott. Öll sem að mótinu standa eru staðráðin í að búa til frábæran viðburð fyrir gesti og keppendur með velferð hesta að leiðarljósi.

Líflegar umræður sköpuðust á fundinum og meðal þess sem var rætt um voru gistimál.  Íbúar Skagafjarðar eru hvattir til að leigja mótsgestum hús, íbúðir, herbergi, hjólhýsi eða hvaða önnur hýsi sem þeir eiga, en til þess er nóg að senda tölvupóst á gisting@landsmot.is og fá þar hjálp við að finna leigjendur, eftirspurnin er mikil.

Nú í aðdraganda Laufskálarétta eru þau sem sækja Hjaltadalinn heim um helgina hvött til að taka rúntinn upp á mótssvæðið á Hólum og skoða þær framkvæmdir sem þar hafa verið gerðar í sumar en svæðið lítur mjög vel út.

Þá er miðasala á Landsmót í fullum gangi á landsmot.is og rétt að vekja athygli á forsölutilboði sem er í gildi nú til áramóta, en miði á Landsmót er upplögð jólagjöf fyrir hestafólk þetta árið!